Heilbrigðisgagnafræði - Nýtt fagháskólanám við HÍ

Heilbrigðisgagnafræði - Nýtt fagháskólanám við HÍ

Nýtt fagháskólanám í heilbrigðisgagnafræði hefst við Háskóla Íslands haustið 2019.  Með því sér fyrir endann á áratuga baráttu Félags íslenskra læknaritara fyrir að koma námi sínu á háskólastig. Í tengslum við þetta verður starfsheiti læknaritara breytt í heilbrigðisgagnafræðingur og verður það kynnt betur innan skamms.

Um námsleiðina

Nám í heilbrigðisgagnafræði er skipulagt sem sérstök námsleið innan Læknadeildar HÍ sem er hluti af Heilbrigðisvísindasviði.  Námið er á stigi 1.1 (þrepi 5.1 samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun).

Fagháskólanám í heilbrigðisgagnafræði er 90 ECTS-eininga fræðilegt og starfstengt nám sem veitir réttindi til að starfa sem heilbrigðisgagnafræðingur.

Námið er skipulagt sem 60 eininga fræðilegt nám í hlutanámi í tvö ár, og í framhaldi af því  er 30 eininga starfsnám (15 vikna) sem fram fer á heilbrigðisstofnun. Námið verður blandað, þ.e. dreifnám (fjarnám með staðlotum) og staðnám.

Allir þeir sem öðlast diplómagráðuna hafa þar með náð sér í 60 ECTS háskólaeiningar sem hægt er að nýta til áframhaldandi náms við HÍ. Möguleiki er að taka t.d. nám í íslensku, tungumálum eða einhverju öðru fagi og fá 60 bóklegu einingarnar úr heilbrigðisgagnafræðinni metnar sem aukafag. Þetta er þó háð samþykki viðkomandi deildar skv. reglum HÍ.

Starfsréttindi og nafnabreyting

Læknaritari er lögverndað starfsheiti. Í tengslum við nýtt nám verður starfsheitinu breytt í heilbrigðisgagnafræðingur (e. Health Information Manager / Health Information Technician).

Löggiltur læknaritari fær starfsheitið heilbrigðisgagnafræðingur og heldur sínu fyrra starfsleyfi og öllum sínum starfsréttindum.

Geta læknaritarar fengið diplómagráðuna ?

Læknaritarar sem þegar hafa starfsleyfi (löggildingu) frá Embætti Landlæknis og stefna á diplómanám í heilbrigðisgagnafræði frá HÍ geta sótt um að fá fyrra nám sitt metið sem hluta af náminu. Við það skal miðað að þeir ljúki að lágmarki sem nemur 18 einingum af fræðilegu (bóklegu) námi í heilbrigðisgagnafræði. Þeir skulu taka eftirtalin námskeið:

  • HGF101 Inngangur að heilbrigðisgagnafræði, 5 ETCS
  • UPP101G Upplýsinga- og skjalastjórn hjá skipulagsheildum, 5 ECTS
  • UPP401G Upplýsingaöryggi, persónuvernd og rafræn vörsluútgáfa, 5 ECTS
  • HVS202G Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi, 1ECTS
  • HVS501M Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum, 2 ECTS

Hvað með núverandi nema við FÁ ?

Þeir nemar sem hafa stúdentspróf geta látið meta sig inn í námsbrautina við HÍ ef þeir kjósa svo.

Öllum núverandi nemum í læknaritun við FÁ gefst kostur á að ljúka námi sínu þar og sækja að því loknu um starfsleyfi sem heilbrigðisgagnafræðingar. Nemar frá FÁ fá ekki diplómagráðuna nema þeir sæki sér þessar sömu 18 viðbótareiningar og aðrir með „gamla“ læknaritaraprófið þurfa að gera.

Frá hausti 2019 verður lokað fyrir nýnema í læknaritun í FÁ, nýnemar í heilbrigðisgagnafræði fara í HÍ.

Hvað er heilbrigðisgagnafræðingur ?

Heilbrigðisgagnafræðingur hefur sérþekkingu á meðhöndlun heilbrigðisgagna, gæðastöðlum, skilvirkni skráningar og lagaumhverfi heilbrigðisþjónustunnar. Hann hefur jafnframt haldgóða þekkingu á heilbrigðiskerfinu og innviðum þess.

Heilbrigðisgagnafræðingur starfar sjálfstætt í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um meðhöndlun heilbrigðis- og persónuupplýsinga og þarf að fylgjast vel með nýjungum og framþróun á starfsviði sínu.

Heilbrigðisgagnafræðingur gegnir lykilhlutverki varðandi heildstætt utanumhald heilbrigðisupplýsinga og sér til þess að öryggi og aðgengi að þeim sé tryggt. Hann stýrir og sinnir gæðaeftirliti sem miðar að því að tryggja áreiðanleika gagna og ber ábyrgð á móttöku heilbrigðisupplýsinga, skipulagningu skráninga, kóðun, úrvinnslu og vistun sem og miðlun upplýsinga.

Heilbrigðisgagnafræðingur tekur þátt í stefnumótun varðandi þróun rafrænnar sjúkraskrár. Hann er tengiliður á milli sjúklinga, fagstétta og annarra hagaðila. Hann skipuleggur og sinnir kennslu og þjálfun annarra heilbrigðisstétta í notkun rafrænnar sjúkraskrár.

Heilbrigðisgagnafræðingur vinnur náið með öðrum fagstéttum að fjölbreyttum verkefnum tengdum gagnavinnslu.

Starfsvettvangur heilbrigðisgagnafræðinga er einkum á heilbrigðisstofnunum, opinberum sem og í einkarekstri.

 

Skipulag námsins

Haust 2019 – 16ECTS

Vor 2020 – 16ECTS

HGF101 Inngangur að heilbrigðisgagnafræði 5ECTS

UPP101G Upplýsinga- og skjalastjórn hjá skipulagsheildum 5ECTS

LÆK124G Líffærafræði fyrir næringarfræðinema 6ECTS

GSL402G Sjúkdómafræði 6ECTS

UPP201G Stjórnun þekkingar og gæða 5ECTS

HGF102 Enska fyrir heilbrigðisgagnafræðinga I 4ECTS1

HVS202G Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi. 1ECTS

Haust 2020 – 13ECTS

Vor 2021 – 15ECTS

HGF104 Lyfjafræði fyrir heilbrigðisgagnafræðinga 5ECTS2

HGF103 Enska fyrir heilbrigðisgagnafræðinga II 4ECTS3

LÆK502F/HGF107 Upplýsingatækni í heilbrigðisvísindum 2ECTS

HVS501M Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum – heilbrigðisvísindadagur. 2ECTS

UPP401G Upplýsingaöryggi, persónuvernd og rafræn vörsluútgáfa 5ECTS

HGF105 Flokkun og kóðun 4ECTS

HGF106 Ritað mál/ framsetning / tjáning / samskipti 6ECTS

Haust 2021 – 30ECTS

Starfsnám á heilbrigðisstofnun í 15 vikur 30ECTS

 

Skólanefnd FÍL hélt kynningu á nýja náminu fyrir læknaritara í BSRB húsinu í lok janúar sl. Meðfylgjandi myndir eru frá þeim fundi. Fundurinn var vel sóttur, um 60  manns mættu á fundinn og auk þess aðrir 60 sem tóku þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Nám í heilbrigðisgagnafræði verður kynnt á Háskóladeginum laugardaginn 2. mars n.k. ásamt öðrum greinum. Við hvetjum ykkur, læknaritarar, til að koma á kynningarbásinn okkar. Bendum einnig á vefslóð fyrir heilbrigðisgagnafræði á vef HÍ:  https://www.hi.is/heilbrigdisgagnafraedi

Bestu kveðjur frá skólanefnd FÍL,

Hallbera Leifsd., Rósa Mýrdal, Kristín Vilhjálmsd. og Þóra Bjarnad.

til baka