Siðareglur

Siðareglur heilbrigðisgagnafræðinga
Codex ethicus

Almennt 

Siðareglum heilbrigðisgagnafræðinga er ætlað að stuðla að og efla umhugsun um siðferðilegar og faglegar skyldur við störf og vera þeim til stuðnings og aðhalds.

Fagmennska

Heilbrigðisgagnafræðingur ber virðingu fyrir starfsheiti sínu, hagar störfum sínum þannig að þau séu stéttinni samboðin og sýnir stéttvísi. 

Heilbrigðisgagnafræðingur þekkir skyldur sínar og réttindi á hverjum tíma, sýnir fagmennsku í starfi og er virkur þátttakandi í að innleiða og standa vörð um faglega starfshætti. 

Heilbrigðisgagnafræðingur vinnur í samræmi við lög og reglur um skráningu og meðferð upplýsinga og gætir fyllsta öryggis í meðferð heilbrigðisupplýsinga. 

Heilbrigðisgagnafræðingur gætir fyllsta trúnaðar og þagmælsku um persónuog heilsufarsupplýsingar einstaklinga. Þagnarskyldan viðhelst þótt hann láti af störfum. 

Heilbrigðisgagnafræðingur viðheldur þekkingu sinni og tileinkar sér nýjungar er starfið varða, tekur þátt í þróun þekkingar innan síns fagsviðs og byggir störf sín á viðurkenndri þekkingu. 

Samstarf og samvinna

Heilbrigðisgagnafræðingur þekkir stefnu, markmið og reglur vinnustaðar síns á hverjum tíma og fylgir þeim svo fremi sem þær samrýmast lögbundnum reglum um störf og siðareglur heilbrigðisgagnafræðinga. 

Heilbrigðisgagnafræðingur sýnir samstarfsfólki virðingu, veitir leiðsögn innan síns fagsviðs og stuðlar að faglegri samvinnu. 

Heilbrigðisgagnafræðingur skal vera virkur þátttakandi í teymisvinnu og þverfaglegri samvinnu þegar það á við. 

Heilbrigðisgagnafræðingi ber að sýna faglega og félagslega samstöðu með öðrum heilbrigðisgagnafræðingum, láta starfsfélaga njóta reynslu sinnar og varast að varpa rýrð á störf eða þekkingu annarra. 

Heilbrigðisgagnafræðingur vinnur fordómalaust og án þess að fara í manngreinarálit. 

Heilbrigðisgagnafræðingur þekkir eigin takmarkanir í starfi og ráðfærir sig við samstarfsfólk þegar hann skortir þekkingu eða þjálfun. 

Vanhæfni /misferli í starfi 

Heilbrigðisgagnafræðingur skal ávallt beita dómgreind sinni í samræmi við aðstæður og tilkynna um sérhvert atvik eða vanrækslu þar sem hann telur að brotið hafi verið gegn rétti sjúklings og meðferðaraðila til öruggra og réttra upplýsinga í sjúkraskrá.

Hver sá sem telur að heilbrigðisgagnafræðingur hafi brotið siðareglur heilbrigðisgagnafræðinga getur vísað málinu til stjórnar HGF.

10/2020