NOLO ráðstefna í Malmö 2019

NOLO ráðstefna í Malmö 2019

        Dagana 25.-26. september síðastliðinn hélt á fjórða tug íslenskra heilbrigðisgagnafræðinga til Skandinavíu til að taka þátt í norrænu læknaritararáðstefnunni (NOLO), sem haldin er á þriggja ára fresti. Að þessu sinni var hún haldin á Sankt Gertrud ráðstefnumiðstöðinni í miðborg Malmö, Svíþjóð. Um 140 konur mættu á ráðstefnuna, flestar frá Svíþjóð og Danmörku, 32 frá Íslandi, fimm frá Færeyjum og tvær frá Finnlandi. Því miður komu engir læknaritarar frá Grænlandi að þessu sinni.

Eftir setningu ráðstefnunnar voru myndbandskynningar birtar frá öllum þátttökuþjóðunum og að þeim loknum var niðurstaða könnunar sem send var öllum meðlimum norrænna læknaritarafélaga kynnt og þær ræddar. Þá tóku við áhugaverðar vinnustofur þar sem hægt var að velja milli ólíkra umræðuefna, sem voru læknaritarar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, ný starfslýsing læknaritara sem er í vinnslu í Danmörku og betra vinnuumhverfi hvað varðar tölvur og tækni. Að lokinni skoðunarferð um miðborg Malmö hittumst við aftur á Sankt Gertrud í mat, drykk og söng.

Seinni dagur ráðstefnunnar hófst á erindi Jens Wilkens frá WHO Europe sem bar saman heilbrigðiskerfi allra Norðurlandanna, hvað sé líkt og ólíkt og hvað við getum lært hvert af öðru. Þá var komið að Richard Mårtensson frá sænsku samtökunum Human & Heart, sem berjast gegn áreitni á vinnustað og ekki síst einelti. Síðasta erindið hélt Pelle Johnsson frá Region Skåne, en allar heilbrigðisstofnanir á Skáni eru að tengjast með rafrænum hætti, svipað og Heilsugátt okkar Íslendinga. Þá var komið að lokum ráðstefnunnar og tími til kominn að kveðja nýja kunningja og fésbókarvini yfir kaffi og nýbökuðum kanilbollum, en vonandi hittum við sem flesta aftur í Noregi árið 2022.

Elísabet Lilja Haraldsdóttir, ritnefnd

 
til baka