2018 03 07 Reykjalundur

Þjóðhagslegur ávinningur af aukinni endurhæfingu á Reykjalundi

- Fyrir hverja 1 krónu sem ríkið ver til endurhæfingar sparast 8-9 krónur annars staðar

Starfsemi Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS hófst árið 1945. Framan af einskorðaðist starfsemin við þjónustu við berklasjúklinga en síðan þróaðist starfsemin yfir í það að vera alhliða endurhæfingarmiðstöð fyrir landið allt. Reykjalundur er í dag stærsta endurhæfingarmiðstöð landsins þar sem árlega koma um 1200 einstaklingar til endurhæfingar hvaðanæva af landinu. Hver einstaklingur er yfirleitt í fjórar til átta vikur í senn við endurhæfingu sem getur verið af margvíslegum ástæðum, svo sem eftir erfið og langvarandi veikindi, alvarleg slys, vegna ofþyngdar eða annarra kvilla svo sem áunninna heilaskaða. Auk þess sækja milli þrjú og fjögur þúsund manns göngudeild Reykjalundar á hverju ári. Á liðnum áratugum hafa þúsundir einstaklinga náð heilsu sinni á ný á Reykjalundi og komist aftur út á vinnumarkaðinn. 

Hver króna sem ríkið ver til endurhæfingarstarfsemi skilar sér áttfalt til baka, samkvæmt íslenskum og sænskum rannsóknum. Árangurinn af starfinu er líka góður, rannsókn sem gerð var á sjúklingum á verkjasviði og náði yfir árin 2004-2011 sýndi að einungis 30% þeirra voru vinnufærir við upphaf meðferðar. Þetta hlutfall var komið uppí 60% hjá þessum sama hópi þremur árum eftir meðferð á Reykjalundi. Í Starfsendurhæfingunni á Reykjalundi fóru 60% af innrituðum sjúklingum á síðasta ári til vinnu eða í nám að meðferð lokinni. Þetta er mjög góður árangur þegar litið er til þess að mest voru þetta einstaklingar sem höfðu verið jafnvel árum saman utan vinnumarkaðar. Þetta skilar sér fljótt í skattekjum ríksins og minni kostnaði við oft á tíðum ótímabærri örorku. Við megum ekki missa fólk í örorku að ástæðulausu.

Reykjalundur er gríðarlega vel mönnuð stofnun á öllum sviðum starfseminnar. Á Reykjalundi starfa nú á annað hundrað manns í 160 stöðugildum, þar af eru læknar, hjúkrunafræðingar, sjúkra- og iðjuþjálfar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, talmeinafræðingar, heilsuþjálfar, næringarráðgjafar og fleiri sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn í hátt í eitt hundrað stöðugildum. Enn þann dag í dag hefur því miður ekkert tækifæri skapast til að koma starfsemi Reykjalundar í sama eða svipað horf og var fyrir hrun enda þótt stjórnvöld hafi á undanförnum misserum sett stóraukið viðbótarfjármagn inn í málaflokk velferðarmála landsins, svo sem til lyfjakaupa og í sjúkrahúsrekstur í því skyni að stytta biðlista og fjölga ýmsum sértækum aðgerðum þar sem þörfin er mest.

Í samningi Reykjalundar við SÍ er gert ráð fyrir að RL endurhæfi árlega 1050 sjúklinga. Reykjalundur fær ekki greitt aukalega fyrir þá sem eru umfram 1050 en njóti færri en það endurhæfingar eru fjárveitingar skertar um um það bil 1 milljón króna á hvern sjúkling sem uppá vantar. Þörfin fyrir endurhæfingu fleiri sjúklinga er hins vegar mjög brýn og í ár stefnir í að beiðnir um meðferð á Reykjalundi verði um 2000. Við gætum gert verulegt átak í að stytta biðlista á Reykjalundi ef fengist til þess fjármagn. Þörfin er mikil og allt er þetta fólk á vinnufærum aldri sem þarf að komast í endurhæfingu og síðan aftur út á vinnumarkaðinn. Eins og áður segir er þjóðhagslegur ávinningur af starfsemi Reykjalundar gríðarlegur og í mörgum tilvikum er þegar hægt með endurhæfingu að koma í veg fyrir eða seinka ótímabærri örorku með þeim kostnaðarauka sem henni fylgir fyrir hið opinbera.

Á Reykjalundi eru starfrækt 8 endurhæfingarsvið þar sem sjúklingar sem takast á við geðraskanir, gigt og þráláta verki, hjarta- og lungnasjúkdóma njóta endurhæfingar auk þeirra sem eiga við taugasjúkdóma að stríða, offitu- og næringarsjúkdóma og önnur veikindi. Lengsta biðin hefur löngum verið eftir offitumeðferð og meðferð vegna þrálátra verkja, en einnig eru aðrir sjúklingahópar í mjög brýnni þörf fyrir endurhæfingu – ekki síst einstaklingar sem orðið hafa orðið fyrir heilaskaða, en sá hópur fær í dag litla sem enga þjónustu eins og Hugarfar, félag fólks með ákominn heilaskaða, hefur bent á að undanförnu.

Reykjalundur er vel mönnuð stofnun og á síðustu árum höfum við lagt okkur sérstaklega eftir því að skapa hér fjölskylduvænan og eftirsóttan vinnustað. Það hefur skilað sér í ánægðu starfsfólki sem skilar frábæru starfi. Reykjalundur er stofnun ársins 2017 og trónir á toppi þeirra tæplega 100 stofnana með fleiri en 50 starfsmenn sem fjármagnaðar eru af ríkinu. Þetta er árleg könnun sem gerð er af fjármála- og efnahagsráði í samráði við SFR. Þetta er frábær árangur og enn einn mælikvarðinn á að við erum að skila árangri ekki bara í meðferðarstarfinu heldur einnig í stjórnun og öllum aðbúnaði starfsmanna. Þetta er frábær árangur og í krafti hans viljum við sækja fram.

Birgir Gunnarsson forstjóri