2018 04 10 MRS

Hugleiðing um læknaritun á LSH-MRS 

Eftir að ég útskrifaðist af náttúrufræðibraut úr menntaskóla fyrir næstum einum og hálfum áratug taldi ég víst að ég myndi ekki leggja raunvísindi fyrir mig í frekara námi og starfi. Enn þann dag í dag hugsa ég með hryllingi til hrútleiðinlegra efna- og eðlisfræðitilrauna og stærðfræðidæma sem virtust engan endi ætla að taka. Þegar líða fór á skólagönguna kom nefnilega í ljós að áhugi minn og helstu styrkleikar lágu frekar á sviði hug- og félagsvísinda, t.d. í tungumálum, sögu og skyldum greinum. Eftir stúdentspróf varði ég því næsta áratug í að afla mér menntunar og starfsreynslu sem endurspegluðu þá staðreynd. Ég var leitandi á þessum tíma og sótti háskólanám í ýmsum greinum, m.a. heimspeki, frönsku, ítölsku og lögfræði, áður en ég fann rétta hillu í kennslufræðum, íslensku og síðan stjórnunarfræðum, með viðkomu í viðskiptafræði. Með námi í síðastnefndu greininni má raunar segja að raunvísindin hafi laumað sér lymskulega inn í líf mitt aftur – bakdyramegin.

Það næsta sem ég vissi var að ég var komin með starf aðstoðardeildarstjóra á Landspítala, þar sem flestir bekkjarfélagar mínir úr menntaskóla hafa vermt ganga og sjúkrarými sem læknanemar og síðar læknar. Þó er ólíklegt að einhverjir þeirra hafi drepið niður fæti á starfsstöð minni, miðstöð um sjúkraskrárritun í Kópavogi, en þar vinna tæplega 50 skeleggar konur við læknaritun, þar á meðal ég. Auk þess að vera hægri hönd deildarstjórans þegar kemur að ýmsum daglegum stjórnunarþáttum fara dagar mínir að mestu leyti í að ráða fram úr flóknum latínuslettum sem ýmist tengjast líffærafræði, lyfjaheitum eða sjúkdómsgreiningum, allt í þeim tilgangi að skráning sjúkragagna fari fram með sem skilvirkustum hætti. Ég eyði því lunganum af venjulegum vinnudegi í að átta mig á annarra manna fagmáli í raunvísindum ­og verð að viðurkenna að ég hef meira gaman af því en mig óraði fyrir.

Þar gæti haft áhrif að starfið reynir mjög á kunnáttu í tungumálum, bæði íslensku, ensku og latínu, en franska og ítalska, sem ég hef lært, eru auðvitað afsprengi þess síðastnefnda. Segja má að færni í starfi læknaritara felist að stórum hluta í tungumálafærni. Til að vera vel skrifandi, vinna hratt og örugglega og skila starfi sínu af fagmennsku og alúð þarf læknaritari nefnilega að vera sterkur á því sviði til að geta ráðið fram úr flókinni íðorðanotkun lækna sem starfa á ólíkum sérsviðum. Innan hvers sérsviðs er ákveðinn orðaforði við lýði og hver og einn læknir hefur sitt tungutak. Starfið er því ansi fjölbreytt og skemmtilegt, ekki síst hvað þetta varðar, enda bætast ný orð í flóruna nánast daglega fyrir nýliða eins og mig. Þrátt fyrir að hafa ákveðið með þjósti fyrir þrettán árum að raunvísindin mættu eiga sig hafa þau því náð aftur í skottið á mér alveg óvart – og ég tek því fagnandi!

Sent inn 10. apríl 2018